Fyrirtækið

Ferðir um Ísland síðan 1962

Guðmundur Tyrfingsson hóf starfsemi með fyrsta hópferðabílinn 1962. Það var Dodge Weapon 1952 sem var keyptur sem sjúkrabíl frá Varnarliðinu. Guðmundur endurbyggði bílinn og hóf að nota hann í hópferða- og skólaakstur.

Í upphafi byrjaði hann með hópferðir og voru fjallaferðir í miklu uppáhaldi. Í kjölfarið hóf hann skólaakstur fyrir Gaulverjabæjarhrepp. Weaponinn átti Guðmundur í tólf ár en þá var hann seldur. Það var svo fyrir fáum misserum að bíllinn komst í okkar hendur aftur og prýðir hann nú höfuðstöðvar fyrirtækisins á Selfossi.

Árið 1969 var fyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson ehf formlega stofnað og sama ár fór fyrsta rútan sem smíðuð var á götuna. Guðmundur Laugdal Jónsson gekk til liðs við nafna sinn 1973 en hann er bifreiðasmiður að mennt og hefur frá upphafi verið yfirsmiður fyrirtækisins og séð um teikningar og hönnun ásamt Guðmundi Tyrfingssyni.

Árið 1971 byggði Guðmundur Tyrfingsson bragga við Nónhóla á Selfossi og þar voru smíðaðar 14 hópferðabílar til eigin nota auk ýmissa annarra verkefna.

Árið 1993 flutti starfsemin í nýtt hús að Fossnesi C Selfossi og jafnframt var stofnað dótturfyrirtækið Tyrfingsson ehf sem sér um smíði og viðhald á rútunum.

Í dag er GTS (Guðmundur Tyrfingsson ehf) með um fimmtíu nýlegar og góðar rútur.

Frá upphafi hefur allt kapp verið lagt á að bjóða upp á góða þjónustu, nýlegar rútur og hagstæð verð.

Við erum með rútur staðsettar í Reykjavík, á Selfossi og víðs vegar um Suðurland allt eftir eðli og umfangi verkefna hverju sinni.

Ferðaskipulagning hefur alltaf fylgt rekstrinum og hefur þáttur hennar aukist mikið síðustu ár. Við skipuleggjum hinar ýmsu ferðir í lengri eða skemmri tíma bæði fyrir Íslendinga eða erlenda ferðamenn.

GTs

GTs er ferðaskrifstofa með hópferðabílum sem skipuleggur ferðir um Ísland. Við bjóðum upp á leiðsögn og ferðir á mörgum mismunandi tungumálum og getum útvegað gistingu, afþreyingu við hæfi og máltíðir. s.s. alhliða ferðir þar sem flest er innifalið.